Nýverið fékk Hjallastefnan til sín góðan gest, Zsófí Bak sem er formaður Félags sjálfstætt starfandi skóla í Ungverjalandi, en innan þeirra samtaka eru 110 skólar á öllum skólastigum. Zsófí þessi hlaut norskan styrk til þess að koma hingað til lands í starfsnám. Dvaldi hún í þrjá mánuði hér á landi og ferðaðist víða, kynnti sér Hjallastefnuna til hlítar með því heimsækja skóla, taka viðtöl við starfsfólk og foreldra, ræða óformlega við starfsfólk Hjallastefnunnar og aukinheldur hitti Zsófí  fjölmarga fagaðila úr menntageiranum sem ekki tengjast Hjallastefnunni beint.

Glöggt er gests augað segir gamalt íslenskt orðatiltæki og því var gaman að sjá að það var margt við skipulag og starfshætti Hjallastefnunnar sem heilluðu gest okkar. Það sem heillaði hana var meðal annars skilvirkni í samskiptum, hvernig upplýsingar flæða á milli eininga Hjallastefnunnar og starfsfólks á milli. Hvernig hreinskiptni er beitt í samskiptum inni í skólunum okkar, á milli nemenda, á milli kennara og nemenda og á milli kennara og stjórnenda. Zsófí hafði aukinheldur orð á því hvað vel hefði tekist til í að mynda samfélag um Hjallastefnuna, hvernig foreldrar og aðstandendur Hjallastefnubarna tilheyrðu Hjallasamfélaginu. Það var fjölmargt áhugavert sem fram kom í skýrslu þeirri er Zsófí Bak sendi okkur og það er alltaf gaman að gleðjast yfir því sem gott er.